Menu Close

VERKEFNIÐ TYGGJÓIÐ BURT!

Ég er Guðjón Óskarsson, 70 ára Reykvíkingur og hef sett mér það markmið að ná sem flestum tyggjóklessum af gangstéttum Reykjavíkurborgar og þá sérstaklega í 101, síðan eins mörgum og ég kemst yfir út frá 101 Reykjavík á 10 vikum. Verkefnið er alfarið á eigin vegum og vonast ég eftir stuðningi fyrirtækja og einstaklinga við þetta nauðsynlega verkefni að ná þessum ófögnuði BURT af gangstéttum borgarinnar. Tyggjóklessur verða fjarlægðar á mjög umhverfisvænan máta þar sem verkfærið notar margnota rafhlöðu.

VANDAMÁLIÐ

Eins og sjá má á myndum hér neðar er tölvert mikið um tyggjóklessur á gangstéttum borgarinnar, mismikið að sjálfsögðu eftir götum og ljótt að sjá.

HREINSUN

Ekki alls fyrir löngu voru gangstéttir 8 aðalgatna Reykjavíkur hreinsaðar með mjög öflugum hreinsitækjum með tilheyrandi kostnaði. Þessar götur eru: Laugavegur, Klapparstígur, Skólavörðustígur, Bankastræti, Lækjargata, Austurstræti, Pósthússtræti og Aðalstræti. Þar sem ferðamenn hafa ekki verið hér undanfarið, hefur okkur Íslendingum tekist að henda miklu magni af tyggjói á gangstéttir ofangreindra gatna á nokkum vikum. Sem dæmi eru í dag 965 tyggjóklessur á gangstéttum Laugavegs frá Hlemmi að Bankastræti (Talning 21. maí) og 286 tyggjóklessur á gangstéttum Austurstrætis (Talning 18. maí). Við verðum að hætta þessum sóðaskap og henda tyggjóinu í ruslið.

HVAÐ SÉR FERÐAMAÐURINN

Hér má sjá myndir af því sem ferðamaðurinn okkar sér við komuna til landsins og þegar hann ferðast um það og að lokum þegar hann fer úr landi. Við verðum að gera betur, það væri yndislegt ef ferðamaðurinn gæti ritað og talað um að það sjáist varla tyggjóklessur á Íslandi.

KOLAGATA – AUSTURSTRÆTI

Kolagata er nýleg göngugata í Reykjavík og öll hellulögð með flottum hellum. Síðan þessi glæsilega gata var opnuð hefur okkur tekist að skapa (framkvæma) 317 tyggjóklessur á þessum fáu mánuðum.

Austurstræti er ein af okkar aðalgötum í Reykjavík og gangstéttir þar voru nýlega hreinsaðar og nú fáum vikum síðar eru þar 286 tyggjóklessur.

SAMKEPPNI; HVERSU MARGAR TYGGJÓKLESSUR VERÐA FJARLÆGÐAR

Á hverjum föstudegi frá 24. júlí í 8 vikur verður keppni um hver giskar rétt á hve margar tyggjóklessur verða fjarlægðar af völdum götum. Við munum byrja á hvað margar klessur  verða fjarlægðar af gangstéttum VEGAMÓTASTÍGS beggja vegna götunnar. Sá sem getur upp á réttum fjölda fær inneign að verðmæti 30.000 kr. hjá fyrirtæki sem tilkynnt verður síðar. Ef að fleiri en einn giskar á réttan fjölda verður dregið um sigurvegara á fyrsta mánudegi eftir keppnisdag. 

STYRKJA VERKEFNIÐ TYGGJÓIÐ BURT!

Þetta verkefni er að sjálfsögðu tölvert kostnaðarsamt og stend ég einn að þeim kostnaði. Þeir sem vilja styrkja verkefnið, einstaklingar eða fyrirtæki, vinsamlega smellið hér neðar.